Valgeir Sigurðsson sendir frá sér Architecture Of Loss
Næstu útgáfu Bedroom Community hafa margir beðið með eftirvæntingu, en það er þriðja sólóplata Valgeir Sigurðssonar – Architecture Of Loss.
Valgeir hefur haft hljótt um sig síðan Draumalandið kom út árið 2010 en hann hefur þó haft í nógu að snúast bak við tjöldin þar sem hann hefur unnið með öðrum Bedroom Community listamönnum auk þess að vinna verkefni með Feist, Damon Albarn og Hilary Hahn & Hauschka svo fátt eitt sé nefnt.
Architecture Of Loss var samið fyrir samnefnt dansverk eftir Stephen Petronio en nú hefur verkið öðlast eigið líf í flutningi Valgeirs auk Nadiu Sirota, Nico Muhly, Shahzad Ismaily og Helga Jónssonar. Platan kemur út 24. september næstkomandi en verður fáanleg í sérstakri Bedroom Community forsölu á bandcamp frá og með 17. september.
Hægt er að taka forskot á sæluna með því að hlusta á eitt laga plötunnar, “Big Reveal”, á vefnum Pitchfork. Einnig má niðurhala laginu á vefsíðu Valgeirs: www.valgeir.net