Úlfur sendir frá sér White Mountain
Tónlistarmaðurinn Úlfur gefur út plötuna White Mountain, 5.mars næstkomandi. Platan er sú fyrsta undir hans eigin nafni.
Úlfur hefur komið víða við í íslenskri jaðartónlistarsenu undanfarin ár, þá helst sem liðsmaður harðkjarnasveitarinnar Swords of Chaos og svo sem bassaleikari í tónleikahljómsveit Jónsa úr Sigur Rós.
White Mountain var gefin út í sérstakri japanskri útgáfu árið 2012, en kemur nú út á vínyl og geisladisk á öllum mörkuðum á bandaríska plötuútgáfufyrirtækinu Western Vinyl (Dirty Projectors, Balmorhea, Here We Go Magic).
Platan hefur nú þegar fengið góða dóma hjá netverjum, en tónlistarsíðurnar Pitchfork.com, og Spin.com kynntu lögin So Very Strange og Heaven in a Wildflower á forsíðum sínum í janúar síðastliðinn. Myndbandið við Black Shore hefur einnig fengið mikla athygli frá frumsýningu – en það var valið á ritstjórnarstöð myndbandsíðunnar Vimeo.com og hafa rúmlega 70 þús manns borið það augum.
Á plötunni hefur hann fengið ýmsa tónlistarmenn til liðs við sig, en þar má helst nefna Skúla Sverrisson, Ólaf Björn Ólafsson, og Alexöndru Sauser-Monnig. Platan var að hluta til tekin upp á tónleikaferðalögum um Evrópu og Bandaríkin, en hljóðblönduð í hljóðveri Alex Somers í Reykjavík.