Önnur breiðskífa Jöru
Pale Blue Dot er önnur plata tónlistarkonunnar Jöru og kemur út þann 1. nóvember á vegum útgáfu fyrirtækisins Angry Dancer Records.
Platan hefur verið í vinnslu í nokkur ár, tekin upp víðsvegar á suð-vestur horninu af Jöru en kláruð í Hljóðrita í Hafnarfirði í samstarfi við Sigurð Guðmundsson (Hjálmar). Jara spilar sjálf á flest hljóðfærin, útsetur prógrammerar og syngur en naut þó einnig dyggrar aðstoðar nokkura hljóðfæraleikara og Sigurðar Guðmunds við að koma plötunni í endanlegt horf.
Platan inniheldur 11 lög sem spanna vítt svið, allt frá því að vera einhvers konar rokk (Rabbit in a Hat, Dúrírúrí Dance Double) yfir í raftónlist (Hope, Eyes of Moonlight and Milky Skin, Animal og fleiri) kassagítarrólegheit (Bobo.B Banzai), flamencodub (Selfdestructionism and/or The Spanish Fly) og tónlist sem gæti allt eins verið úr bíómynd eftir Dario Argento eða David Lynch (Someone´s definitely trying to kill me, you know, Chateau Marmont).
Jara hefur aðallega starfað við tónlist síðustu ár og samið tónlist fyrir leikhús og bíó. Hún gaf út plötuna Dansaðu við mig árið 2008 með tónlist úr samnefndu leikverki eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur og vann verðlaun fyrir bestu tónlist í stuttmynd á stuttmyndahátíðinni Cote Court í París á síðasta ári.